Innlent

Flogið með þorskinn til Bretlands

Þorskur er alveg hættur að velkjast dögum saman í togurum til að komast á markað í Hull eða Grimsby heldur fer hann nú þangað með sérstöku þorskáætlunarflugi á nokkrum klukkustundum, fjórum sinnum í viku.  Gríðarleg aukning hefur orðið á fiskútflutningi með flugi upp á síðkastið og voru til dæmis 26 þúsund tonn af þorski, miðað við þyngd upp úr sjó, flutt út með flugi í fyrra. Það eru rösklega ellefu prósent af öllum þorskaflanum í fyrra. Ekkert lát er á þessu í ár og þannig er Icelandair fraktflug búið að fjölga ferðum sínum með fisk til Humber-svæðisins, þar sem Grimsby og Hull eru, í fjórar í viku. Að sögn Péturs Eiríkssonar, framkvæmdastjóra félagsins, koma vélarnar þangað með glæný flök á miðnætti. Þar tekur fiskverkafólk við þeim og meðhöndlar þau frekar og um fjögurleytið um nóttina hefst svo dreifing í Texko, Max og Spencer og aðrar fínar verslanir sem vilja státa af fyrsta flokks ferksfiskborðum á hverjum morgni. Um það bil þriðjungur alls fiskafla sem flutttur er út með flugi fer til Bretlands, þriðjungur inn á meginlandið, m.a. til Belgíu og Frakklands, og þriðjungur hefur farið til Bandaríkjanna, þótt dregið hafi úr því upp á síðkastið vegna þess hve dollarinn er ódýr og þar með fæst lítið fyrir fiskinn þar. Aukningin til Bretlands hefur hins vegar vegið það upp og gott betur. Flugfiskurinn er alveg búinn að skáka gámafiskinum, sem fer út með flutningaskipum, samanber það að í fyrra fóru 26 þúsund tonn út með flugi en aðeins tæp tíu þúsund í gámum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×