Innlent

Segja launin vera langt undir lágmarkstaxta

Guðmundur Ómar Guðmundsson, formaður Félags byggingarmanna í Eyjafirði, segir tvö fyrirtæki á Akureyri, SS Byggi og Glugga, greiða tékkneskum starfsmönnum fyrirtækjanna lægri laun en lögbundnir lágmarkstaxtar kveði á um.

"Fyrirtækin fengu starfsmennina fyrir milligöngu sömu erlendu starfsmannaleigunnar og þau hafa bæði verið treg til að veita upplýsingar um kjör Tékkanna og þá sérstaklega SS Byggir. Samkvæmt þeim gögnum sem við höfum í höndunum eru launin verulega lægri en lágmarkslaun eiga að vera og munar þar tugum prósenta í sumum tilfellum," segir Guðmundur Ómar.

Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri SS Byggis, telur að fyrirtækið sé ekki að hlunnfara starfsmennina. "Við greiðum starfsmannaleigunni umsamda upphæð en ef í ljós kemur að við erum að brjóta á réttindum Tékkanna verða launin leiðrétt," segir Sigurður.

Eyþór Jósepsson, framkvæmdastjóri Glugga, segir fyrirtækið hafa skilað öllum umbeðnum gögnum en hann er óhress með framgöngu Guðmundar Ómars í málinu. "Hann fullyrðir við hina og þessa að við séum lögbrjótar og í stað þess að leysa málin vill hann heldur skapa illindi. Í því liggur hans metnaður," segir Eyþór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×