Innlent

Heill á húfi allan tímann

Víðtækri leit að erlendum ferðamanni var hætt um hádegisbilið í dag eftir að upplýsingar bárust um að hann væri heill á húfi. Jove Miguel Vipond lagði upp frá Hrafntinnuskeri í gærmorgun og ætlaði að ganga að Álftavatni. Það er aðeins fjögurra til fimm klukustunda ganga og þegar hann hafði ekki skilað sér við Álftavatn í gærkvöldi, þar sem hann ætlaði að gista, var ákveðið að hefja að honum leit. Þegar ekkert bólaði á Vipond var ákveðið að fjölga í leitarliðinu og í alla nótt og vel fram á morgun bættist við mannskapur. Upp úr klukkan átta var þyrla Landhelgisgæslunnar send af stað til að aðstoða björgunarmenn sem þá voru orðnir um eitt hundrað, auk fimm leitarhunda. Leitarskilyrði úr lofti voru takmörkuð og eins voru bæði þoka og rigning á leitarsvæðinu lengi vel. Þegar leitarmenn voru orðnir úrkula vonar um hádegisbilið bárust fregnir af ferðum Vipond á Klaustri. Við nánari athugun kom í ljós að hann hafði gist þar, án þess að afpanta gistinguna við Álftavatn. Talið er að slæm veðurskilyrði hafi orðið til þess að hann hafi ákveðið að breyta áætlun sinni og halda á Klaustur. Hægt hefði því verið að komast hjá þessari viðfangsmiklu leit ef Vipond hefði látið skálaverði á Álftavatni vita að hann ætlaði ekki að koma þangað. En þar sem veður á Laugaveginum var slæmt í gærkvöldi og nótt, suddi og bleyta og aðeins fjögurra stiga hiti, var ákveðið að taka enga áhættu, enda aðeins ár síðan erlendur ferðamaður varð úti á þessum slóðum við svipuð veðurskilyrði og í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×