Viðskipti innlent

Tilboðsfrestur framlengdur

Einkavæðinganefnd ákvað í gær að lengja frest til að skila inn óbindandi tilboðum í Símann til 17. maí næstkomandi. Átti fresturinn að renna út 6. maí. Jón Sveinsson, formaður nefndarinnar, segir það hafa tekið lengri tíma að útbúa trúnaðarsamning og viðbótargögn til að afhenda áhugasömum fjárfestum. Einnig var tekið fyrir bréf Agnesar Bragadóttur og Orra Vigfússonar þar sem óskað var eftir fjögurra til átta vikna fresti til að skila inn tilboði. Jón segir nefndina hafa komist að þeirri niðurstöðu að búið væri að marka rammann um söluferlið, það hefði verið kynnt opinberlega og þýðingarmikið að fyrirkomulagið væri trúverðugt. Allir ættu að sitja við sama borð og gæta ætti fyllsta jafnræðis. Í ljósi þess var nefndinni ekki fært að verða við ósk Agnesar og Orra en Jón segir þeim hafa verið bent á að fresturinn til að skila inn tilboðum var lengdur af öðrum orsökum. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að til greina kæmi að ráðstafa hluta af söluandvirði Símans í að fjármagna Sundabraut og önnur samgönguverkefni sem ekki væru í vegaáætlun. Einkavæðingarnefnd ákvað jafnframt á fundi sínum í gær að miða skyldleika og tengsl væntalegra tilboðsgjafa við hámark þrjátíu prósent atkvæða í félagi eða rétt til að tilnefna eða setja af fleiri en einn stjórnarmanna eða meirihluta stjórnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×