Viðskipti innlent

22 milljarðar í íbúðalán í mars

Hækkun íbúðaverðs herðir enn á sér og nam fimm prósentum síðasta mánuð en 32 prósentum þegar til tólf mánaða er litið. Húsnæðiskaupveltan á höfuðborgarsvæðinu er nú aftur á hraðri uppleið, eftir að hafa dalað heldur eftir áramót, og er nú að nálgast hámarkið frá því í desember. Þá fjölgaði þinglýstum kaupsamningum í síðustu viku, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, og fór fjöldinn á báðum stöðum yfir meðaltal síðustu 12 mánaða. Í mars lánuðu bankarnir tæpa 22 milljarða króna í íbúðalán sem var aukning um 1,2 milljarða frá fyrra mánuði og 3,5 milljarði meira en í janúar. Jafnframt þessu aukast útlán úr Íbúðalánasjóði en þau námu tæpum sjö milljörðum króna og hafa því aukist um röska tvo milljarða frá dýfunni sem þau tóku í september sl. eftir að bankarnir komu inn á markaðinn. Meðalupphæð íbúðalána bankanna er um ellefu milljónir um þessar mundir, þremur milljónum hærri en hjá Íbúðalánasjóði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×