Innlent

Aflaði upplýsinga án heimildar

Persónuvernd hefur kveðið upp þann úrskurð að Tollstjóranum í Reykjavík hafi verið óheimilt að afla upplýsinga í málaskrá lögreglu um einstakling sem sótti um starf hjá embættinu. Um var að ræða starfsmann í lögfræðideild Tollstjóraembættisins sem sótti um annað starf innan deildarinnar. Í starfsviðtali var honum gert að undirrita yfirlýsingu þess efnis að tollstjóra væri heimilt að afla upplýsinga um sig úr málaskrám lögreglu og tollstjóra. Þegar svo í ljós kom að umsókn starfsmannsins var hafnað sökum þess að nafn hans var að finna í málaskrá lögreglunnar, kvartaði hann til Persónuverndar vegna ólögmætrar öflunar persónuupplýsinga. Persónuvernd kemst að þeirri niðurstöðu að þessi upplýsingaöflun hafi verið óheimil og bendir á að persónuupplýsingar í málaskrá lögreglunnar geti verið óáreiðanlegar og jafnvel villandi. Skráðir Íslendingar í málaskrá lögreglu voru liðlega 200 þúsund um miðjan þennan mánuð en skráningar ná aftur til ársins 1988.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×