Innlent

Skaftárhlaup í rénun

Hlaupið í Skaftá náði hámarki í gærmorgun en þá mældist rennslið við Sveinstind 720 rúmmetrar á sekúndu. Að sögn Sverris Óskars Elefsen hjá Vatnamælingum Orkustofnunar er því hlaupið orðið álíka hlaupunum 2000 og 2002 en mun stærra og meira en síðasta hlaup, sem var 2003. Rennsli Skaftár við Kirkjubæjarklaustur náði svo hámarki um miðjan dag í gær en þar mældist það 114 rúmmetrar á sekúndu í gærmorgun. Þar hefur áin kvíslast og er því öllu minni en við Sveinstind. Ekki hefur ennþá gefist færi á að fljúga yfir Vatnajökul til að sjá úr hvorum katlinum hlaupið kemur og liggur það því á huldu að sögn Sverris. Oddsteinn Kristjánsson, bóndi í Hvammi, segir að áin hafi verið tilkomumest við túnfótinn hjá sér um hádegi í gær en talsvert hafi dregið úr hlaupinu seinnipartinn. Hann segir þó að þetta sé með minni hlaupum og segir þau fara minnkandi þó þetta hlaup skáki því síðasta. "Áður fór hún alltaf yfir veginn en hún hefur það ekki af lengur," segir Oddsteinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×