Innlent

Haförn sást í Víðidal

Haförn hefur gert sig heimakominn í Húnaþingi vestra, á slóðum þar sem þessi konungur fuglanna á Íslandi sést venjulega ekki. Íbúarnir á bænum Dæli í Víðidal segja að hann hafi fyrst sést í október og síðan hafi hann öðru hverju komið í heimsókn. "Ég hef búið hérna síðan 1983 og hef aldrei séð haförn áður," segir Sigrún Valdimarsdóttir, sem býr á Dæli. "Þetta er mjög tignarlegur fugl. Hann er alltaf einn og ég held að hann sé hér í leit að æti. Hann hefur sést mikið við Víðidalsá þar sem mér skilst að hann sé að veiða sér silung." Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segist hafa frétt af erninum í Víðidal en einnig hafi hann frétt af erni í Vatnsdal. Vel geti verið að um sama örn sé að ræða. Hann segir stofninn, sem nú telji um 200 fugla, sé hægt og bítandi að jafna sig. Það sjáist best á því ernir séu nú að sjást víðar en bara við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Kristinn Haukur segir að samkvæmt lýsingum sé örninn í Húnaþingi dökkur og því sé hann líklega ungur. Auk þess að hafa heyrt af honum veiðandi sér silung eða smálax hafi einnig frétt að hann hefði verið að kroppa í kindahræ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×