Erlent

Sprengingar í New Orleans

Miklar sprengingar heyrðust í New Orleans nú fyrir stundu, en enn er ekki vitað hvað sprakk eða hvers vegna. Óöld og stjórnleysi ríkja í borginni þar sem vopnuð glæpagengi fara um og stela öllu steini léttara. Lögreglumenn segja fólk hafa verið myrt og konum hafa verið nauðgað inni í Superdome-íþróttahöllinni þar sem þúsundir hafa leitað skjóls. Þjóðvarðliðar streyma nú til hamfarasvæðanna en margir lögreglumenn hafa skilað inn sínum skjöldum og lagt niður störf. Flestir voru þeir búsettir í borginni og eru þegar búnir að missa allt sitt og finnst því ekki þess virði að reyna að stemma stigu við glæpum við jafnhættulegar aðstæður. George Bush, Bandaríkjaforseti er væntanlegur til borgarinnar í dag, en reiði í garð yfirvalda fer vaxandi þar sem björgunarstörf þykja hafa gengið hægt og fólk er farið að deyja unnvörpum úr hungri og vosbúð. Sjúkrahúsin eru án rafmagns og lyfja og segja örþreyttir læknar og hjúkrunarfræðingar að þeir veikustu séu einfaldlega látnir deyja, annað sé ekki að gera. Fimm dagar eru síðan fellibylurinn Katrín gekk yfir suðurströnd Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×