Erlent

Upplýsingar Vilhjálms hafa áhrif

Upplýsingar Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar um örlög gyðinga í Danmörku hafa sífellt meiri áhrif. Nú hafa afkomendur gyðinga sem dönsk stjórnvöld vísuðu úr landi krafist opinberrar afsökunarbeiðni. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur hefur rannsakað örlög gyðinga í Danmörku í seinni heimsstyrjöldinni og komist að því að að minnsta kosti 19 gyðingum var vísað frá Danmörku á þessum tíma og þeir fluttir í útrýmingabúðir nasista þar sem þeir dóu. Auk þessarra 19 sem vitað er um og Danir vísuðu úr landi að eigin frumkvæði er vitað til að dönsk stjónvöld hafi látið undan kröfu þýskra stjórnvalda á stríðsárunum og vísað fleiri gyðingum úr landi og til Þýskalands. Afkomendur gyðinganna sem dönsk stjórnvöld sendu í dauðann hafa nú krafist þess að danska ríkisstjórnin biðjist opinberlega afsökunar á þessu og einn þeirra, Susan Watson, segir að dönsk stjórnvöld eigi að gangast fyrir opinberri minningarathöfn um þá sem vísað var úr landi. Þrjú hálfsystkini Watson og móðir þeirra dóu í Auschwitz-fangabúðunum eftir að þeim var vísað frá Danmörku. Watson segir að fólk verði að fá að vita hvað gerðist og að dönsk stjórnvöld verði nú, svona mörgum árum síðar, að axla ábyrgð sína. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur ekki svarað þessari kröfu. Hann er nú á Taílandi en þau boð hafa borist frá honum að dönsk stjórnvöld íhugi að biðja gyðinga afsökunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×