Erlent

Gerðu árangurslaust áhlaup

Hundruð írakskra og bandarískra hermanna gerðu í morgun áhlaup á bæ skammt frá Bagdad í von um að frelsa þar á annað hundrað gísla sem eru í haldi mannræningja.  Hersveitirnar umkringdu í gærkvöldi bæinn Madaen, skammt frá Bagdad, og bjuggu sig undir áhlaupið. Í morgun var svo ráðist á hluta bæjarins og þar leitað bæði mannræningja og gísla. Hvorki fannst tengur né tetur af þeim en talsmenn herliðsins segja frekari aðgerða að vænta á næstunni. Embættismenn í Bagdad segja mannræningjana hafa allt að 150 manns í haldi sínu, þar á meðal börn og konur. Talsmenn lögreglu segja aftur á móti að gíslarnir gætu verið mun færri, jafnvel ekki fleiri en þrír. Í yfirlýsingu frá al-Qaida í Írak er því hins vegar haldið fram að ekki sé einn einasta gísl að finna í Madaen. Sagan sé uppspuni, til þess fallinn að réttlæta árás hersetuliðsins á bæinn og súnníta. Það munu vera súnnítar sem halda gíslunum og hóta að drepa þá hverfi ekki allir sjítar af svæðinu. Embættismenn í Bagdad segja að gíslarnir verði drepnir innan sólarhrings en það hefur ekki fengist staðfest. Þó að það sé á reiki hvort gíslar séu í raun og sann í haldi mannræningja í Madaen, og hversu margir þeir eru, óttast margir í Írak að málið sé til þess fallið að auka á spennuna á milli súnníta og sjíta, en þeir ásamt Kúrdum vinna að því að koma á starfhæfri ríkisstjórn í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×