Sport

Handtekinn í lok leiks

Þær eru mismunandi aðgerðirnar gegn rasisma í fótboltaheiminum og morgunljóst að slíkir þrjótar eru teknir mjúkum vetlingatökum hér í Evrópu miðað við það sem á sér stað niður í Suður-Ameríku ef marka má nýjustu fregnir þaðan. Leikmaður argentínska liðsins Quilmes, Leandro Desabato, var handtekinn og settur í handjárn í lok leiks gegn Sao Paulo í Libertadores bikarkeppninni fyrir meint rasismaummæli gegn leikmanni mótherjanna í leik liðanna á miðvikudagskvöld. Desabato þurfti að dúsa í grjótinu í 40 klukkutíma áður en honum var sleppt gegn tryggingu. Hann kom til heimalandsins seint í gærkvöldi föstudagskvöld ásamt nokkrum liðsfélögum sínum. Brasilísk yfirvöld eru að reyna að setja fordæmi með handtökunni sem lið í herferð gegn rasisma en þetta atvik hefur nær sett allt á annan endann og eru forráðamenn Quilmes æfir vegna málsins. Þeir segja Desabato hafa verið fórnarlamb farsakenndrar atburðarrásar á vellinum. Ásakanir gegn leikmanninum hafi verið byggðar á varalestri af sjónvarpsupptöku af fyrri hálfleik en það var eins og áður segir í lok leiksins sem lögreglan gekk inn á völlinn og handtók leikmanninn. Það er spurning hvort Sepp Blatter forseti FIFA sjái þarna leið til að slá á rasista hegðun leikmanna í Evrópu sem hefur verið áberandi, sérstaklega á Spáni undanfarið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×