Sport

Giggs ekki búinn að ná samkomulagi

Um helgina sögðu enskir fjölmiðlar frá því að knattspyrnumaðurinn Ryan Giggs hjá Manchester United hefði komist að samkomulagi við félagið um nýjan 2 ára samning en erfiðlega hefur gangið í samningaviðræðum undanfarið. Umboðsmaður velska vængmannsins sagði þó í viðtali við Manchester Evening News nú síðdegis að þessi fréttaflutningur væri "bara bull" og nýjar samningaviðræður við Man Utd væru alls ekki hafnar. Hnífurinn í kúnni stendur þannig að ekki tíðkast hjá félaginu að framlengja samning við leikmann yfir þrítugu nema til eins árs í senn en ekki tveggja eins og Giggs fer fram á en hann verður 32 ára á árinu. Samningur Giggs við Man Utd rennur út sumarið 2006 og vill hann fyrir alla muni tryggja það að hann ljúki ferli sínum hjá félaginu sem hann hefur leikið með allan sinn feril með því að gera nú samning til 2 ára. Giggs hefur lengi þráast við að skrifa undir 1 árs framlengingu og fari félagið ekki að gefa eftir má búast við því að hann verði seldur í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×