Erlent

Vopnahlé eftir fjögurra ára stríð

Samningamenn Ísraela og Palestínumanna komust í gær að samkomulagi um vopnahlé í rúmlega fjögurra ára löngu stríði þeirra sem kostað hefur þúsundir Palestínumanna og Ísraela lífið. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, undirrita samkomulagið á fundi sínum í Egyptalandi í dag. "Mikilvægast af öllu á fundinum er sameiginleg yfirlýsing um að hætta ofbeldisverkum gegn hvorum öðrum," sagði Saeb Erekat, helsti samingamaður Palestínumanna, eftir að samkomulag náðist í gær. Fram að því höfðu embættismenn úr röðum hvort tveggja Palestínumanna og Ísraela varað við því að of miklar vonir yrðu bundnar við fundinn í dag. Meðal þeirra atriða sem er að finna í samkomulaginu er ákvæði um skipun sameiginlegrar nefndar sem ákveður hvaða skilyrði palestínskir fangar í ísraelskum fangelsum þurfi að uppfylla til að verða leystir úr haldi. Nefnd verður einnig skipuð til að hafa yfirumsjón með brotthvarfi ísraelskra hersveita frá borgum á Vesturbakkanum. Ísraelar vöruðu í gær við því að herskáir Palestínumenn kynnu að reyna að koma í veg fyrir árangur af fundinum. Shaul Mofaz, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði í viðtali við útvarpsstöð Ísraelshers að leyniþjónustunni hefðu borist upplýsingar um að sumir hópar vígamanna, þeirra á meðal líbönsku samtökin Hezbollah, kynnu að reyna að hleypa fundinum upp og sagði ekki útilokað að reynt yrði að ráða Abbas af dögum. "Við verðum mjög virk," sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og hét stuðningi stjórnar sinnar við friðarferlið í Mið-Austurlöndum. Hún hefur rætt við Sharon og Abbas síðustu dag. Hún sagði Sharon að hann þyrfti að taka erfiðar ákvarðanir til að koma á friði. Eftir að hún fundaði með Abbas í gær skipaði hún öryggisráðgjafa sem hefur yfirumsjón með formbreytingum palestínskra öryggissveita og hét Palestínustjórn styrk að andvirði 2,5 milljarða króna til atvinnuuppbyggingar og til að byggja upp innviði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×