Sport

Ekki falur fyrir 5,9 milljarða

Rick Parry, einn af stjórnarmönnum Liverpool-liðsins, lét hafa eftir sér á dögunum að stjórn liðsins myndi neita 50 milljóna punda tilboði í Steven Gerrard sem nemur um 5,9 milljörðum íslenskra króna. "Steven er yfir peninga hafinn. Hann er framtíð okkar," sagði Parry. "Það skiptir ekki máli hvort við fáum, 30, 40 eða 50 milljóna tilboð. Við munum þó ekki halda honum gegn hans vilja. Honum er frjálst að fara ef svo ber undir."  Parry sagði enn fremur að forráðamenn Real Madrid hafi reynt að næla í Gerrard þegar Fernando Morientes gekk til liðs við Liverpool. "Madrid fékk sama svar - Steven er ekki til sölu." Aðspurður hvort Gerrard yrði innan raða Liverpool er flautað verður til leiks á næsta tímabili, gat Parry lítið um það sagt. "Ég vona að svo verði. Steven veit hvað mér finnst og einnig hvað Rafa finnst," sagði Parry og átti þar við Rafael Benitez, knattspyrnustjóra Liverpool. "Við sögðum Steven nýlega að við ætluðum að byggja liðið í kringum hann. Við erum alveg jafn þyrstir í árangur og hann en drögum ekki metnað hans í efa. Ég held að hann vilji ná árangri með Liverpool, meira en nokkuð annað. Við viljum allir sjá breytingu til hins betra á næsta tímabili þannig að allir eru á sama báti hér." Parry tjáði sig einnig um nýjan leikvang Liverpool-liðsins sem reisa á í Stanley Park. Stefnt er að því að leikvangurinn verði tilbúinn árið 2007 en Parry útilokaði ekki að gripið yrði til þess ráðs að vera með auglýstan völl. "Það er ekkert ákveðið í þeim efnum en ég held að við færum á mis við mikið ef við myndum ekki skoða þann möguleika." 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×