Innlent

Verð á notuðum bílum hríðlækkar

Verð á notuðum bílum hefur hríðlækkað í kjölfar mikils innflutnings á bílum frá Bandaríkjunum og söluaukningar á nýjum bílum. Salan er engu að síður góð og telur einn bílasali skýringuna liggja í því að fólk fjölgi einfaldlega bílum á heimilinu í góðæri eins og nú er, en fækki þegar harðnar í ári.  Heilu skipsfarmarnir af nýjum og notuðum bílum frá Bandaríkjunum eru nú fluttir til landsins vegna lágs gengis dollarans. Á sama tíma hefur sala á nýjum bílum tvöfaldast hjá umboðunum og er búist við að hún verði 12-14.000 bílar í ár, miðað við um 6.000 bíla meðalsölu fyrir nokkrum árum. Og þeir sem eignast alla þessa nýju bíla hljóta að gera eitthvað við gömlu bílana sína. Á bílasölunum uppi á Höfða eru öll plön troðfull af notuðum bílum. Samt segja bílasalar að það sé rífandi sala og í sjálfu sér ekki undan neinu að kvarta fyrir þá. En ef sala á nýjum bílum hefur tvöfaldast, og ofan á bætist allur þessi innflutningur frá Bandaríkjunum, hvað verður um alla bílana sem fólk á fyrir? Óskar Guðnason, sölustjóri Aðalbílasölunnar, segir að sín skoðun sé sú að þegar það sé góðæri þá fjölgi bílum heimilisins - ekki aðeins foreldrarnir séu á bíl heldur einnig börnin. Þegar harðni í ári komi bílarnir svo aftur inn á bílasölurnar. Óskar, og reyndar allir aðrir bílasalar sem fréttastofa hafði samband við, segir þetta ár því hafa verið mjög gott, mikil sala, blómleg viðskipti. Meðalbílinn sem seldur er kostar á bilinu 800-1.200.000 krónur og Óskar segir flesta slá lán fyrir kaupverðinu. Aðspurður hvort verðið hafi lækkað af einhverju viti samfara þessu aukna framboði segir hann það svo sannarlega hafa gerst. Nú sé hægt að gera frábær kaup á notuðum bílum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×