Viðskipti innlent

Bakkavör í takt við spár

Bakkavör hagnaðist um ríflega 1,5 milljarða íslenskra króna á síðasta ári. Hagnaðurinn er svipaður og í fyrra, en þá var færður til bókar söluhagnaður af sjávarútvegsstarfsemi félagsins. Hagnaður fyrir skatta nam tveimur milljörðum króna. Vöxtur í undirliggjandi starfsemi var átján prósent. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi jókst um ríflega 40 prósent. Bakkavör gerir upp í breskum pundum og í þeirri mynt jukust tekjur um 18,6 prósent og hagnaður fyrir fjármagnsliði um 18,3 prósent. Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar segir niðurstöðuna sýna góðan rekstur og hraður vöxtur gæfi ótvírætt til kynna þá sterku stöðu sem félagið hefði áunnið sér meðal viðskiptavina sinna. Hann segir sölu hafa aukist til allra helstu viðskiptavina félagsins. "Markaðsaðstæður hafa verið erfiðar, en samt erum við að vaxa heilmikið. Það sem er mikilvægast er að vöxturinn skilar sér hlutfallslega í afkomu félagsins." Eignabreytingar og samþjöppun hefur orðið á breska smásölumarkaðnum sem er markaðssvæði Bakkavarar. Harðnandi samkeppni smásala í Bretlandi hefur leitt til þrýstings á verð frá framleiðendum. Sala fyrir jólin var einnig minni en búist var við. Þetta hefur leitt til þess að framlegð samkeppnisfyrirtækja Bakkavarar hefur minnkað. Hlutfall rekstrarhagnaðar af tekjum batnar hins vegar lítillega hjá Bakkavör milli áranna 2003 til 2004 samfara vexti. Bakkavör á fimmtungshlut í breska matvælafyrirtækinu Geest og kannar nú áreiðanleika fjárhagsupplýsinga fyrirtækisins með kaup á fyrirtækinu í huga. Ágúst segir gert ráð fyrir að þeirri könnun ljúki í febrúar. Bakkavör hefur stofnað félag í Asíu og hyggst fylgja stærsta viðskiptavini sínum Tesco í uppbyggingu á þeim slóðum. Tesco hefur unnið til sín markaðshlutdeild á breskum smásölumarkaði og Bakkavör nýtur góðs af því. Stjórnendur Bakkavarar meta horfur góðar fyrir þetta ár. "Við búumst við áframhaldandi örum vexti í eftirspurn eftir kældum tilbúnum réttum á heimamarkaði félagsins í Bretlandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×