Innlent

Skemmtiferðaskip í gleðigöngu

Gleðigangan eða Gay Pride heldur niður Laugaveg á morgun og var víða unnið að undirbúningi hennar í dag en nú standa yfir hinsegin dagar. Ýmis farartæki verða í göngunni og má þar nefna skemmtiferðaskip. Klukkan þrjú á morgun leggur gangan af stað og fjörið hefst. Að mörgu þarf að huga því mikið er lagt í skreytingar og búninga þeirra sem þátt taka í göngunni. Dragdrotting Íslands frá í fyrra, Ólafur Helgi Ólafsson eða Starína, er með atriði í göngunni og hefur hvorki meira né minna en fimm dansara með sér. Aðspurður um atrirðið segir Ólafur að ætlunin sé að sigla niður Laugaveginn á Gay Cruise skemmtiferðaskipi og þar sem hann láti af hendi titilinn dragdrottning Íslands sé hann í raun að sigla í burtu. Aðspurður hversu lengi undirbúningurinn hafi staðið segir Ólafur að allur júnímánuður hafi farið í að æfa, smíða og sauma en hann hafi unnið að undirbúningi í hálft ár. Aðspurður hvort þetta sé þess virði segir Ólafur að svo sé. Þetta sé mjög gaman. Ungliðahreyfing samtakanna 78 ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og vann hörðum höndum að undirbúningi í dag. Aðspurð um þeirra atriði segir Arna Arinbjarnardóttir að þau hyggist vera frægt samkynhneigt fólk og því muni þau klæða sig þannig upp. Hún segist sjálf ætla vera Cynthia Nixon sem lék Amöndu í Beðmálum í borginni, en hún sé nýlega komin út út skápnum. Hinsegin dagar hófust í gær og ætla margir að mæta á stelpuball og strákaball í kvöld. Stelpuballið verður í Iðnó en strákaballið á Pravda. Böllin verða alveg kynjaskipt og gildir kynjaskiptingin líka um starfsfólkið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×