Erlent

Frá smástirni til loftsteins

Loftsteinn verður ekki loftsteinn fyrr en hann skellur á jörðina. Fram að því heitir hann smástirni. Þetta geimgrýti getur verið afar mismunandi að stærð, allt frá risastórum flykkjum á borð við Apophis, niður í agnarlítil sandkorn. Þetta eru smæstu agnir geimsins sem eru á braut um sólu. Steinarnir eru yfirleitt úr bergi, bergi og járni eða járni. Flestir þeirra eru frá því sólkerfið myndaðist fyrir um 4600 milljónum ára.

Vegna smæðar sinnar verða loftsteinar fyrst sýnilegir þegar þeir komast í snertingu við lofthjúp jarðar. Þá sést það sem við köllum yfirleitt stjörnuhrap. Steinarnir glóa vegna núnings við sameindir lofthjúpsins sem skella á þeim á miklum hraða. Flestir loftsteinar brenna algjörlega upp í lofthjúpnum í um 100 km hæð. Þeir sjást sjaldan í meira en fáeinar sekúndur og ferðast á hraðanum 5-30 kílómetrar á sekúndu. Stundum eru steinarnir þó það stórir að þeir ná ekki að brenna upp til agna í lofthjúpnum og falla til jarðar.

Til eru mörg dæmi um að loftsteinar hafi skollið til jarðar. Í október 1992 sást eldhnöttur á himni yfir Peekskill í New York sem splundraðist í nokkra hluta og féll til jarðar. Eitt brotið lenti á bifreið konu nokkurrar. Hún slapp ómeidd en varð afar undrandi þegar hún fór út úr bílnum og sá hvar stór steinn lá við hliðina á honum. Steinninn reyndist vera loftsteinn og var tólf kíló á þyngd. Verra var fyrir konuna að tryggingar bæta ekki tjón af völdum loftsteina svo hún sat uppi með kostnaðinn af skemmdunum á bílnum. Hún sló hins vegar eign sinni á steininn og svo hljóp heldur betur á snærið hjá henni því henni voru boðnir nokkur þúsund dollarar fyrir loftsteininn og bílinn sem nú er sýningargripur.

Heimild: Stjörnufræði­vefurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×