Innlent

Ósáttir við fuglaveiðibann

Eigendur jarðarinnar Selskarðs eru ósáttir við að ríkið banni fuglaveiðar með skotvopnum á jörðinni. Rétt er þó að geta þess að jörðin er í Garðabæ, aðeins steinsnar frá aðsetri forseta Íslands. Eigendur jarðarinnar, þeir Björn Erlendsson og Jón Lárusson, kærðu ríkið fyrir að leyfa ekki veiðar með skotvopnum á jörðinni en málinu var vísað frá af Héraðsdómi Reykjaness. Þeir eru svo sannarlega ekki ánægðir með þau endalok og segjast munu halda áfram að berjast. Þeir vildu þó ekki koma fram í fjölmiðlum.- Þeir Björn og Jón segja að í kaupsamningi frá 29. maí 1912 komi fram að jörðin seljist með öllum gögnum og gæðum, sem og réttindum til lands og sjávar. Jón sagði í samtali við Stöð 2 að þó svo jörðin sé þetta nálægt byggð sé langt í næstu hús og ekkert því til fyrirstöðu að skotveiðar væru leyfðar. Þá sagði Jón veiðiréttinn hafa fylgt lögbýlinu og jörðinni frá ómunatíð en jörðin hefur verið í eigu fjölskyldu þeirra Björns og Jóns frá árinu 1964. Sýslumaður var ekki viðlátinn í dag til að tjá sig um málið en víst er að nágrannar myndu eflaust hafa eitthvað við því að segja ef leyfi fyrir fuglaveiðum yrði veitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×