Innlent

Nær öllu starfsfólkinu sagt upp

Nær öllu starfsfólki hjá fiskvinnslunni Drangi á Drangsnesi hefur verið sagt upp störfum. Þar eru ekki nægir bátar til að útvega fiskvinnslunni hráefni; þeir eru allir uppteknir á grásleppuveiðum. Fimmtán manns starfa hjá fiskvinnslunni og er fyrirtækið stærsti atvinnurekandinn á staðnum en þar búa um sjötíu manns. Á milli tíu og fimmtán bátar gera upp hjá Drangi en núna eru langflestir bátarnir á grásleppu og eina hráefnið sem fiskvinnslunni berst eru grásleppuhrogn. Starfsfólkinu var því sagt upp og er á atvinnuleysisbótum. Óskar Torfason, framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar, segist vona að hægt verði að kalla aftur í fólkið þegar þorskurinn birtist á ný. Óskar segir að atvinnuástandið á Drangsnesi hafi verið bærilegt síðustu ár. Hann segir að meira sé að gera í vinnslunni á veturna heldur en sumrin og hann vonast til að geta ráðið starfsfólkið aftur í byrjun júní. Hann segist tvímælalaust sjá fyrir sér áframhaldandi rekstur á frystihúsinu. Og það er uppbygging á Drangsnesi því þar er verið að byggja sundlaug sem verður opnuð á svokölluðum „Bryggjudögum“ þann 16. júlí í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×