Innlent

950 manns með öðrum í herbergi

950 aldraðir búa í herbergi með öðrum á hjúkrunarstofnunum og eru þá frátalin hjón og sambúðarfólk. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Björgvins Sigurðssonar á Alþingi. Víða í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við gildir löggjöf sem bannar fjölbýli á öldrunarstofnunum með þeim rökstuðningi að það stríði gegn grundvallarreglu um friðhelgi einkalífsins. Ef ná á þeim áfanga hér á landi þarf að kosta til 7-9 milljörðum og miðað við þann tæpa milljarð sem varið er í framkvæmdir í þessum málaflokki árlega þá tæki langan tíma að leiðrétta þetta ástand segir í svari ráðherra. Ólafur Ólafsson formaður Landssambands eldri borgara segir ástandið slæmt, sérstaklega á eldri stofnunum. Samkvæmt úttekt sem nefnd á vegum Félags eldri borgara gerði árið 2004 virðast þó ný viðmið gilda þegar nýjar stofnanir eru byggðar en þar búa 73% einstaklinga í einbýli. Aðspurður hvort úttekt hafi verið gerð á vilja eldri borgara til þess að vera í einbýli þá segir Ólafur að slík úttekt hafi ekki verið gerð nýlega en síðast þegar það var gert lýsti yfirgnæfandi meirihluti einstaklinga því yfir að helst vildu þeir vera útaf fyrir sig. Ólafur gerir sterklega ráð fyrir að svo sé enn. Eins tekur Ólafur sérstaklega fram að auk þess sem margir þurfi að deila stofum með bláókunnugu fólki þá sé víða mannekla sem bitnar á þjónustunni. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði í samtali við blaðamann að ekki sé hægt að búast við því að hægt verði að ráðast í endurbætur á gömlum stofnunum. Aðaláhersla sé lögð á það núna að öll ný hjúkrunarrými séu einbýlisrými og sökum þess hve biðlistar eru langir þurfi að verja þessum fjármunum einmitt í nýbyggingar. Mun meiri peninga þurfi í geirann ef hægt eigi að vera að gera endurbætur á gömlum rýmum. Samstarfssamningur sé í gildi við Landssamband eldri borgara og stefnt sé að því að fjölga einbýlum á öldrunarstofnunum skref fyrir skref.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×