Innlent

Tvær konur fundust látnar

Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur segir velferðarkerfið öryggisnet sem ekki geti komið í stað náungakærleiks.
Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur segir velferðarkerfið öryggisnet sem ekki geti komið í stað náungakærleiks.

"Þetta er harmleikur. Við hljótum að hugsa til ýmissa sem eru einir. Þessi einmanaleiki er löngu kominn til sögunnar þegar þetta gerist," segir séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur.

Um síðustu helgi fundust tvær konur látnar á heimilum sínum í Reykjavík. Önnur þeirra hafði verið látin í allt að þrjár vikur og hin í að minnsta kosti tíu daga áður en þær fundust. Þær voru 78 ára og 61 árs og bjuggu báðar einar í fjölbýlishúsum. Í báðum tilvikum var það nálykt sem vakti undrun og eftirgrennslan.

Hjálmar telur að nú sé hægt að spyrja sig hvort viðhorf fólks til náunga síns hafi breyst. "Þá þurfum við líka að vera á verði gagnvart því," segir Hjálmar.

Aðstandandi eldri konunnar segir að þegar fólk er orðið fullorðið og veikt þá eigi ekki að hlusta á það þó að það vilji ekki að haft sé eftirlit með því. Konan hafði ekki viljað eiga samskipti við fjölskyldu sína um árabil.

"Ég held að það hljóti allir að finna til ábyrgðar sinnar þegar fréttir berast af svona atburðum. Það hljóta allir að finna til óþæginda innra með sér. Það er ekki eðlilegur maður sem ekki tekur það nærri sér þegar svona gerist," segir séra Hjálmar. Hann segir að hversu vel sem hægt sé að útbúa velferðarkerfið þá taki það aldrei alfarið við hlutverki náungakærleikans. "Við eigum að gæta bræðra okkar."

Lögregluyfirvöld treysta sér ekki til þess að leggja mat á hvort tilfelli sem þessi séu að aukast, jafnvel þótt stutt sé síðan sams konar atvik komst í hámæli. Í lok september var meðal annars greint frá máli Franz Stavarssonar en hann lá örendur í íbúð sinni í tvær vikur áður en hann fannst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×