Innlent

Vélknúið hné með hreyfiafl

Forstjóri Össurar á kynningunni í New York. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, kynnir nýja gervihnéð fyrir blaða- og fréttamönnum.
Forstjóri Össurar á kynningunni í New York. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, kynnir nýja gervihnéð fyrir blaða- og fréttamönnum.

Stoðtækjafyrirtækið Össur kynnti á þriðjudag nýja tegund af gervihné sem er það eina sinnar tegundar í heiminum. Á blaðamannafundi sem haldinn var í New York upplýsti Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, einnig að tímaritið Popular Science, sem lesið er um allan heim, hafi valið nýja hnéð sem eina af 100 bestu nýjungum ársins. Fjallað verður um hnéð í næsta tölublaði sem kemur út eftir um það bil hálfan mánuð.

"Það sem er algjörlega einstakt við Powerknee-gervihnéð er að í fyrsta sinn er líkt eftir vinnslu vöðva," segir Jón, en nýja hnéð er búið gervigreind og skynjar hvað sá sem það ber ætlar að gera. "Hingað til hafa gervilimir ekki verið búnir hreyfiafli," segir hann.

Ekki er enn búið að verðleggja nýja hnéð, en það er að sögn Jóns margfalt dýrara en forverinn, sem kallast Rheo Knee. "Rheo kostar um 16 þúsund Bandaríkjadali. Það nýja margfaldar þá upphæð. Stundum hefur verið talað um að gervilimur kosti á við nýjan bíl, en Power Knee er á við marga nýja bíla."

Jón segir stefnt að því að koma nýja gervihnénu í sölu í byrjun næsta árs, en býst við dræmum viðtökum hjá sjúkrastofnunum og almannatryggingum fyrst í stað, einmitt vegna kostnaðar. "Það er segin saga í hvert sinn sem nýjungar af þessu tagi koma fram. En þetta er hins vegar besta varan sem í boði er," áréttar hann.

Aðspurður um hvað kostað hafi að þróa nýja hnéð segir Jón það ekki verða gefið upp, en viðurkennir þó að milljónum dala hafi verið varið til verksins.

Simon Bouchnard sem er einfættur og hefur tekið þátt í að prófa nýja hnéð, segir mesta muninn vera að geta gengið eðlilega án þess að þurfa að leiða hugann að því að vera einfættur. "Hitt er svo aukabónus að geta gengið upp stiga og svoleiðis vandræðalaust," segir hann, en í bás Össurar í New York sýndi hann hvernig nýja hnéð reynist.

Kim De Roy, verkefnisstjóri Power Knee-þróunarteymisins hjá Össuri, fór yfir helstu nýjungar tengdar nýja hnénu. Þá kynnti hann næstu skref í þróun gervi­lima og taldi að innan fimm til tíu ára yrði hægt að tengja þá taugakerfi fólks og gera þá þannig enn betri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×