Innlent

42 milljónir takk

Bílasalan Sparibíll býður nú til sölu bíl af gerðinni Rolls Royce Phantom árgerð 2005. Bíllinn sem um ræðir er staðsettur í Bandaríkjunum og kostar hingað kominn litlar 42 milljónir. Þó skal tekið fram að aðflutningsgjöld og tollar reiknast sem að minnsta kosti helmingur upphæðarinnar og vilji kaupandi bruna um þjóðvegi Ameríku á kagganum þá þarf ekki að borga nema rétt um 20 milljónir fyrir hann. Bíllinn er heil 450 hestöfl og slagrými vélarinnar er 6800 rúmsentimetrar. Þetta afl skilar 2,5 tonna þungum bílnum upp í 100 kílómetra hraða á aðeins 5,9 sekúntum. Leðurklætt áklæðið er handsaumað og bíllinn settur saman samkvæmt kúnstarinnar reglum, engir róbótar þar á ferð. Eins gott er líka að eiga smá afgang fyrir bensíni því bíllinn eyðir nær 25 lítrum á hverja 100 kílómetra, sannkallaður hákur. Eitt er þó víst; flestir mundu líta við og horfa á eftir þessum á rúntinum og skiptir þá engu máli hvort fólk hafi nokkurn sérstakan áhuga á bílum yfirleitt. Samkvæmt upplýsingum frá bílasölunni hafa þó engar alvöru fyrirspurnir borist enn í bílinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×