Viðskipti innlent

Upp undir kvótaþakinu

Tillaga um samruna HB Granda, Tanga og Svans RE-45 verður lögð fyrir stjórnir félaganna í dag. HB Grandi er fyrir sameiningu með mestan kvóta allra sjávarútvegsfyrirtækja á landinu. Eftir sameiningu verður fyrirtækið með 31 þúsund þorskígildistonna kvóta innan íslenskrar lögsögu sem er níu prósent af úthlutuðum kvóta. Sé úthafskvótinn tekinn með er kvótinn 52 þúsund tonn eða tólf prósent af heildarkvótanum. Kristján Þ. Davíðsson, aðstoðarforstjóri HB Granda, segir Tanga liggja vel við síldar- og kolmunnaveiðum, auk þess sem bræðslur fyrirtækisins eru nær miðum á fyrrihluta loðnuvertíðar. Tangi hefur fryst síld og loðnu á Vopnafirði auk mjölframleiðslu. "Síldarfrysting hefur verið í gangi hjá Tanga með miklum ágætum í haust, meðal annars með afla skipa HB Granda," segir Kristján. "Meðan þeir Tangamenn hafa verið í þessu hafa þeir átt bágt með að manna bolfisksvinnsluna. Það hefur þýtt að þeir hafa látið okkur hafa þorskinn til vinnslu á Akranesi." Kristján segir þetta samstarf hafa gengið vel og því sé sameining rökrétt framhald af þessari samvinnu. Við sameininguna er HB Grandi kominn þétt upp að kvótaþakinu. Kristján vill engu spá um hvort eða hvenær kvótaþakinu verði lyft. "Við höfum í sjálfu sér nóg að gera við að vinna úr þessari sameiningu sem við gerum ráð fyrir að verði. Það verður kappnóg að ná fram samlegðaráhrifum og vinna úr hagræðingunni."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×