Erlent

Víti til varnaðar óróaríkjum

Innrásin í Írak hefur haft jákvæð áhrif í átt til að sporna gegn útbreiðslu gjöreyðingarvopna en neikvæð áhrif í þá átt að ýta undir hryðjuverk. Þetta segir í skýrslu Friðarstofnunarinnar í Stokkhólmi um afleiðingar innrásarinnar. Í skýrslunni segir að innrásin kunni að hafa valdið því að nokkur lönd ákváðu að endurskoða áætlanir sínar um að koma sér upp gjöreyðingarvopnum. Þar hafi ráðið mestu staðfastur vilji Bandaríkjanna og annarra ríkja til að beita valdi til að koma í veg fyrir að gjöreyðingarvopn komist í hendur þeirra sem þau treysta ekki. Líbía er tiltekin sem dæmi um þetta, þarlend stjórnvöld ákváðu að hætta við að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum eftir innrásina í Írak. Skýrsluhöfundar vara þó við því að þrátt fyrir að sum ríki hafi ákveðið að hætta tilraunum til að koma sér upp gjöreyðingarvopnum kynnu önnur að líta svo á að eina von þeirra um að sleppa við árásir sé að koma sér upp gjöreyðingarvopnum. Reynslan í Írak gefur að mati skýrsluhöfunda til kynna að þrátt fyrir að innrásin hafi verið vel heppnuð hafi hernámið gengið illa. Mikið sé um ofbeldisverk og innri deilur sem geti leitt til áframhaldandi óstöðugleika í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×