Skoðun

Sagðirðu hryðjuverkamenn?

Sagðirðu hryðjuverkamenn hr. Bertelsson? - Gústaf Gústafsson, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Vesturbyggðar. Undanfarna daga hafa verið ritaðar margar greinar í dagblöðin vegna kennaraverkfallsins sem hófst 20. september s.l. Mörg orð hafa verið rituð sem að mínu viti eru illa ígrunduð og ósanngjörn. Þar eru framarlega í flokki rithöfundar tveir, hr. Thorsson og hr. Bertelsson, en ég ætla einungis að svara bakþönkum hr. Bertelssonar. Í bakþankagrein þinni í Fréttablaðinu hr. Bertelsson líkir þú hugmyndafræðinni bak við verkfall kennara við hugmyndafræði hryðjuverkamanna og lætur að því liggja að kennarar hafi í raun tekið börnin í gíslingu. Hugmyndafræði hryðjuverkamanna! Ótrúlegt hjá þér hr. Bertelsson að skella þessu framan í alþjóð, þ.e. að nota hugtakið hryðjuverk og tengja það íslenskum kennurum. Ertu að líkja kennurum við hryðjuverkamennina í fréttunum sem skera höfuðin af fórnalömbum sínum, gíslunum, sprengja upp barnaskóla og strætisvagna? Gengurðu heill til skógar hr. Bertelsson? Lýsir þetta ekki fáfræði þinni hr. Bertelsson, eða gremju? Hugmyndafræðin bak við verkföll er hugmyndin um neyðarrétt, sama hvaða stétt á í hlut. Og löng saga stéttabaráttu í heiminum ætti að vera þér kunn hr. Bertelsson, með öllum þeim fórnum sem færðar hafa verið til þess að ná fram rétti vinnandi fólks um allan heim. Hundruðir manna og kvenna hafa í gegnum tíðina látið lífið í þeirri baráttu, ekki vegna þess að baráttan væri óþörf, heldur vegna þess að fólk gat ekki hugsað sér að afkomendurnir lifðu við sömu kjör. Staðreyndin hefur nefnilega verið sú gegnum tíðina hr. Bertelsson að vinnuveitendum hefur staðið nokk á sama hvernig verkalýðurinn hefur haft það. En með fórnum, baráttu og samstöðu hefur okkur orðið nokkuð ágengt, þótt í dag séu yfirvöld einbeitt í þeirri stefnu sinni að ná aftur af okkur ýmsum réttindum og setja aftur í lög frumskógarlögmálið sem gilti einu sinni. Undarleg tilhneiging það, ekki satt hr. Bertelsson? Þetta veistu allt hr. Bertelsson, en ég sé að þú kýst að nýta þér ekki þá þekkingu sem þér var veitt af íslensku samfélagi, skólakerfinu og þínum kennurum, heldur kýstu að nota aðstöðu þína á Fréttablaðinu til að kasta skít í kennara. Líttu í lófa þér hr. Bertelsson, situr ekki eitthvað eftir af kúknum sem þú kastaðir? Hitt skaltu skoða hr. Bertelsson að ,,sumar" stéttir þurfa ekki að fara í verkfall, því fyrir þeim er séð af kjaradómi. Samt er það svo að þær stéttir sem lúta kjaradómi fá mjög misjafnlega dæmt, allt eftir því hversu hátt þær eru skrifaðar. Persónulega hefði ég ekkert á móti því að kennarar fengju að miða sín laun við einhverja ákveðna prósentu af einni slíkri hátt skrifaðri stétt, t.d. hæstaréttardómurum eða alþingismönnum, en þessum stéttum eru réttar kauphækkanir hvort sem beðið er um þær eða ekki. Þú segir réttilega að sveitarfélögin spari peninga meðan á verkfallinu stendur. Gæti það verið ástæðan fyrir því að þau vilja ekki semja við kennara Hr. Bertelsson? Þau eru líka búin að spara hundruði milljóna frá 1. apríl 2004, með því að gera ekki nýjan samning sem t.d. hefði bara 4% kauphækkun í för með sér. Sveitarfélögin bera líka fyrir sig fátækt, en voru það ekki sveitarfélögin sem vildu ólm fá skólana yfir til sín og skeyttu þá engu hvort ríkið léti fylgja upphæð sem nægði til að reka slíkt fyrirbæri. Staðreyndin er nefnilega sú hr. Bertelsson að ríkið var búið að klípa markvisst utan af skólakerfinu til margra ára áður en þeir sendu þetta yfir á sveitarfélögin ´96. Svo kom ný Aðalnámskrá ´99, en í henni hr. Bertelsson, er tíundað ýmislegt sem ekki var með í reiknilíkaninu sem reiknaði kostnaðinn þegar yfirfærslan átti sér stað. Kennarasamtökin vöruðu sveitarfélögin við þessu öllu, en þau kusu að skella við skollaeyrum. Þetta gætirðu allt kynnt þér hr. Bertelsson ef þú hefðir á því minnsta áhuga. Hr. Bertelsson, þú minnist á mjólkurfræðinga og að þeir gætu tekið kýr í gíslingu! En það hafa þeir oft gert Hr. Bertelsson! Mjólkurfræðingar hafa farið í verkföll og engu hefur skipt hvað kusurnar hafa baulað hátt, né heldur að bændur hafa þurft að hella niður mjólkinni, mjólkinni sem börnin þurfa að drekka svo beinin þeirra nái eðlilegum þroska. Hvernig gátu mjólkurfræðingar gert beljunum þetta hr. Bertelsson, svo ekki sé nú minnst á börnin og beinin? Og það þarf ekki verkfall umönnunarstétta Hr. Bertelsson til þess að sjúklingar þessa lands fái ekki umönnun, því ríkið ákveður bara sparnað og deildum er lokað og sjúklingum vísað frá, geðsjúkum ekki sinnt, loforð við fatlaða svikin o.s.frv. Þó eru opnuð ný sendiráð og farið fram úr áætlunum hjá ráðuneytunum, stofnaður íslenskur her og sendur til útlanda og haldnar veislur hr. Bertelsson. Og svo kemurðu náttúrulega að kjarna málsins hr. Bertelsson þegar þú ferð svo skemmtilega yfir hvernig ,,góðir samningamenn" leysa málin. En gæti verið að þú vissir harla lítið um hvað þú ert að tala í því sambandi hr. Bertelsson, því kennarar eru búnir að reyna að fá LN til viðræðna í mjög langan tíma, en ekki fengið. Best væri að sjálfsögðu að nýr samningur væri tilbúinn þegar sá gamli gengur úr gildi, en af hverju ætli það sé ekki þannig hr. Bertelsson? Jú, vegna þess hr. Bertelsson, að sveitarfélögin hefðu tapað hundruðum milljóna. Og eins og þú veist vel hr. Bertelsson þá snýst þetta allt um peninga, hjá kennurunum að fá borgað mannsæmandi kaup fyrir vinnu sína og menntun og sveitarfélögunum að spara sem best þau geta, alla vega á vinnulaunasviðinu. Síðasti samningur kennara tók gildi 1. jan. 2001. ,,Síðan eru liðin mörg ár", eins og segir í vinsælum söngtexta hr. Bertelsson og samningurinn rann sitt skeið og gildistíminn rann út án þess að nýr samningur væri gerður eða jafnvel undirbúinn. Mér er fullkunnugt um að Kennarasambandið reyndi að fá LN til viðræðna um málin, en án árangurs. Kennarar fóru í verkfall vegna þess að LN vildi ekki semja hr. Bertelsson og ég fullyrði að kröfur kennara er ekki ósanngjarnar, heldur réttmætar. Og ef verkföll eru skyndilega orðin tímaskekkja, eins sumir vilja meina, þá vil ég bara benda á að til þess að slíkur réttur verði tekinn af heilli stétt þarf eitthvað að koma í staðinn sem tryggir að t.d. kjaradómur geti ekki dæmt áunnin réttindi af þeirri sömu stétt. Nær væri þér að kynna þér málin hr. Bertelsson áður en þú ,,asnast" fram á ritvöllinn með þessum hætti. Og ég vil nota orð eins merkasta rithöfundar þjóðarinnar, sem byrja svona: ,,Hver sá sem kynnir sér stjórnmál..........", breyta þeim örlítið og segja: ,,Hver sá sem kynnir sér ,,launamál kennara" og sér ekki að launakröfur þeirra eru sanngjarnar, hann er asni!". Hr. Bertelsson, mér finnst við hæfi að þú kynntir þér málið náið og skrifaðir síðan, ekki öfugt. Eins vona ég að þetta sé í síðasta skipti sem þú líkir Íslendingum og íslenskum aðstæðum við hryðjuverkamenn og hugmyndafræði þeirra, því varla ertu svo skini skroppinn að þú sjáir ekki hversu fáránlegt slíkt í raun er. Og eiginlega vona ég hr. Bertelsson, að þú sért nú þegar kominn með ,,bakþanka".



Skoðun

Sjá meira


×