Sport

Átti von á Frömurum grimmari

,,Við vorum staðráðnir í að spila þetta af alvöru þrátt fyrir að það væri þannig séð ekki mikið að spila fyrir. Við enduðum í 5. sæti og hefðum getað endað neðar en ég bjóst við Frömurunum grimmari. Við vorum kannski ekki að spila neinn stórleik, mér fannst þeir bara daufir. Við byrjuðum strax að láta boltann rúlla og um leið og við náum því opnast einhvers staðar glufur," sagði Stefán Gíslason. "Við gerðum það alveg ágætlega og vorum að sprengja mikið inn á senterana og höfðum þess vegna getað skorað enn fleiri mörk. Við fengum fullt af færum og ég veit ekki hvað það var dæmd oft rangstaða á okkur. Það var jákvætt að enda þetta svona og gott fyrir bikarleikinn um næstu helgi að taka þetta með góðum sigri núna og bætir sjálfstraustið frá því hefur verið", sagði Stefán Gíslason leikmaður Keflvíkinga. ,,Við vorum ekki tilbúnir í þennan leik, það er alveg á hreinu. Þetta var mjög sérstakur leikur því að síðustu sex ár hefur Fram orðið að vinna en nú þurftum við ekki að vinna. Ég hef ekki skýringu á því hvað gerðist og get ekki greint það svona strax eftir leik," sagði Ólafur Kristjánsson. "Það er mjög erfitt að fara inn í hausinn á mönnum og sjá hvað er að en þetta er víti til varnaðar og eitthvað til þess að læra af. Við vorum ekkert að halda okkur uppi á þessum leik í dag, við héldum okkur uppi á ágætis spilamennsku í öðrum leikjum seinni hluta mótsins eftir að ég tók við liðinu. Ég tek við liðinu með 5 stig og skila því með 17 stig. Það gera 12 stig í seinni umferð og það er ásættanlegur árangur. Ég sé eftir að hafa breytt vörninni fyrir leikinn. Það eru mín mistök og ég tek þau á mig. Þjálfarinn gerir breytingar og hann verður að standa og falla með þeim. Sem betur fer var ég ekki felldur af þeim þegar á heildina er litið en í þessum leik var það falleinkun", sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari Fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×