Erlent

Styttri afgreiðslutími í Danmörku

Algengt er að verslanir í Árósum í Danmörku séu opnar til klukkan sjö eða átta síðustu kvöldin fyrir jól. Allt er lokað á aðfangadag og eitt kvöld í nóvember er opið til miðnættis vegna jólainnkaupa. Þegar danski jólasveinninn kemur siglandi frá Grænlandi til Árósa í nóvemberlok eru verslanir opnar til miðnættis. Sú miðnætturopnun er tvisvar á ári, einu sinni að sumri og einu sinni að vetri. Algengt er að verslanir séu alla jafna opnar til klukkan hálfsex á daginn. Í fataversluninni Bestseller á Strikinu í Árósum er venjulegur afgreiðslutími þangað til síðustu viku fyrir jól. Þá er opið til klukkan 19 og um helgar til klukkan 18. Einn starfsmaður segir það alveg nóg. Aðeins stóru vöruhúsin séu opin lengur. Í stærstu verslunarmiðstöð Árósa, Bruuns Galleri, er opið aðeins lengur, til klukkan átta og níu síðustu kvöldin fyrir jól. Sunnudagsopnanir eru sérauglýstar rétt fyrir jól og í Magasín og er aðeins opið til klukkan fimm um helgar. Svo er bara að sjá hvort íslenskir eigendur eigi eftir að breyta því. Jóladagarnir eru þeir sömu og á Íslandi. Á aðfangadag er þó allt lokað í Danmörku og verða þeir síðustu því að klára að kaupa gjafirnar á Þorláksmessu. Starfsmaður Bestseller segir alltaf einhverja á hlaupum rétt fyrir lokun, en það sé ekki til vandræða. Fólk kaupi enda almennt jólagjafirnar snemma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×