Skoðun

Rannsóknir í Háskóla Íslands

 Rannsóknardagur Háskólans - Jarþrúður Ásmundsdóttir formaður Stúdentaráðs Í dag, föstudaginn 12. nóvember, stendur Stúdentaráð, í samvinnu við Háskóla Íslands, fyrir Rannsóknadegi Háskólans í Öskju.Kynnt verða rannsóknarverkefni úr öllum deildum skólans í máli og myndum, örfyrirlestrum og á sérstöku sýningarsvæði. Auk þess verður þjónustuborð á staðnum fyrir þá sem vilja kynna sér betur náms- og samstarfsleiðir innan skólans. Markmið Rannsóknadagsins er að kynna sérstöðu og styrk Háskóla Íslands á sviði rannsókna og þekkingaröflunar. Fulltrúar atvinnulífsins eru sérstaklega boðnir velkomnir þar sem tilgangur dagsins er meðal annars að undirstrika hin öflugu tengsl Háskóla Íslands og þjóðlífsins. Þá er framhaldsskólanemum, framtíðarstúdentum Háskólans, boðið að koma og kynnast fjölbreyttu rannsóknastarfi skólans. Að endingu er Rannsóknadagurinn ekki síst haldinn fyrir stúdenta Háskólans til þess að kynna fyrir þeim þá miklu grósku sem ríkir í deildum skólans. Á Rannsóknadeginum gefst því fulltrúum úr atvinnulífinu, nemendum framhaldsskólanna og háskólafólki einstakt tækifæri til þess að kynnast rannsóknum innan Háskóla Íslands. Rannsóknadagurinn er frumkvæði stúdenta til að minna á sérstöðu Háskóla Íslands á sviði rannsókna og þekkingaröflunar. Það er mikilvægt að standa vörð um hagsmuni skólans í þessu sambandi, því undanfarin ár hafa fleiri skólar sótt í sjóði ríkisins en sjóðurinn stækkar ekki jafnvel þó að fleiri skólar bætist í hópinn. Ljóst er að hlúa verður að stöðu háskólans og efla þá fjárfestingu og reynslu sem safnast hefur upp frá stofnun hans. Frá upphafi hefur öflun, varðveisla og miðlun fræðilegrar þekkingar hefur verið kjarni Háskóla Íslands. Svo verður áfram um ókomna tíð. Stúdentaráð og Háskóli Íslands vonast til að sjá sem flesta í Öskju föstudaginn 12. nóvember kl. 12:00, en þá mun Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður Stúdentaráðs, setja daginn og Páll Skúlason rektor flytja ávarp. Kynningin stendur yfir til kl. 16:30.



Skoðun

Sjá meira


×