Skoðun

Efst í huga Ómars Stefánssonar

Efst í huga Ómars Stefánssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins í Kópavogi. Fjölskyldan Það síðasta sem nokkur maður skyldi gera þegar verið er að hugsa um að eignast barn er að reikna út hvað það kostar. Íslendingum gæti hætt að fjölga. Fyrir nokkru tók ég saman hvað grunnur að einum mánuði kostaði fyrir okkur fjögur. Um 170 þúsund kr. Mér brá, en viðurkenni að ég get skorið niður með því að segja Sýn og Mogganum upp, en á móti kemur að ég reikna engan kostnað í fatnað, skó eða tómstundir. Hvert barn kostar á bilinu 30 til 50 þúsund á mánuði. Fyrir þessa upphæð er hægt að hafa fínan bíl á rekstrarleigu! Miðað við að ótekjutengdar barnabætur eru 36.308 kr. á barn yngra en 7 ára, þá borga foreldrar á Íslandi 11 mánuði á ári fyrir barnið og fá einn mánuð frían. Gerum betur. Fótbolti Sumarið er tíminn. Það er varla til sá grasblettur með mörkum sem ekki iðar af lífi frá morgni til kvölds. Fótboltinn er skemmtilegur og ég er einn af þeim sem hef gaman af því að fara á völlinn. Ég klappa, stappa og hrópa, jafnvel kemur það fyrir að ég leiðbeini dómara leiksins um atriði sem ég sé úr stúkunni miklu mun betur en hann sem er rétt við atvikið. Ég er stuðningsmaður og sem slíkur frábið mér að lið frá einhverjum smábæ út á landi skuli biðjast afsökunar á að hafa tapað í bikarkeppninni í fótbolta fyrir stórveldinu úr Kópavogi. Þetta sumar verður skemmtilegt í Kópavogi. Það fer lið úr Kópavogi í úrvalsdeild karla líka. Áhorfendur hafa ekki verið nógu duglegir að mæta á völlinn. Mætum og styðjum okkar lið. Gerum betur. Fasteignaverð Undanfarið hefur fasteignaverð hækkað og hækkað. Ég leyni þeirri skoðun minni ekkert að það sem m.a. hefur hækkað verð á húsnæði er að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, önnur en Kópavogur, hafa ekki verið nægilega dugleg við að hafa framboð á lóðum. Þau sveitarfélög sem hafa haldið útboð á þeim fáu lóðum sem þau hafa verið að úthluta eiga hvað mesta sök á því hvað fasteignaverð hefur hækkað á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ég fyrst og fremst að tala um Reykjavík. Það getur hvert mannsbarn séð það að þegar lítið framboð er af lóðum, þá er verðið á þeim hátt, sem leiðir til hækkunar á húsnæði og breytir þá litlu hvar á höfuðborgarsvæðinu það er. Peningar eru ekki allt og ekkert réttlætir að aðeins þeir ríkustu geti fengið lóðir. Gerum betur. Friður Ísland er nafli alheimsins og Kópavogur er höfuðborgin. Fjölskyldan, fótboltinn og fasteignaverð eru þau málefni sem eru efst í huga í augnablikinu. En ekki má gleyma einu mikilvægu málefni, sem er friður. Fyrir hvern þann sem hefur eitthvað verið að ferðast um Miðausturlönd er ekki annað hægt en að hugsa um frið og hungursneyð. Fyrir þá sem hafa rekið sig á menn berandi gamla hríðskotabyssu á bakinu og betlandi börn á sama götuhorninu er ekki annað hægt en að vona að einhvern tímann verði jafn gott að búa alls staðar í heiminum og í Kópavogi. Það er langt í frá að annars staðar búi fólk við sömu lífsgæði - við getum hjálpað til. Þróunaraðstoð Íslands er ekki í samræmi við þau lífsgæði sem við lifum við hér á landi. Gerum betur.



Skoðun

Sjá meira


×