Skoðun

Heimavinna og verkfall

Kennaraverkfall - Ásta Möller Jóhann Björnsson kennari í Réttarholtsskóla skrifar grein í Fréttablaðið í gær um viðbrögð við verkfalli. Þar vísar hann í stutt viðtal við mig í föstum dálki Fréttablaðsins sem birtist 13. október sl. Þar voru þrír aðilar beðnir um að gefa álit sitt á hvernig eigi að leysa kennaradeiluna. Svar mitt var eftirfarandi. "Báðir aðilar verða að horfa raunsætt á málið. Það sem skiptir máli er að deiluaðilar sýni vilja til að semja og setji sig í spor hins. Það er ekki hægt að ná samkomulagi nema aðilar komi að þeim með því hugarfari að slá af kröfum, með einum eða öðrum hætti. Traust þarf að ríkja milli aðila og ég veit ekki hvort það traust er til staðar. Það þarf einnig að ríkja samningsvilji. Svo skiptir máli að deiluaðilar hafi stuðning úti í samfélaginu. Það skortir kannski helst að kennarar hafi unnið heimavinnuna áður en þeir fóru út í kjarabaráttuna. Ég hef fullan skilning á stöðu þeirra en þeim hefur ekki tekist að kynna málstað sinn nægilega vel. " Jóhann veltir því fyrir sér hvað ég á við með orðunum: "Það skortir kannski helst að kennarar hafi unnið heimavinnuna áður en þeir fóru út í kjarabaráttuna". Í samhengi viðtalsins ætti að vera ljóst hvað ég á við. Einn mikilvægasti þátturinn í undirbúningi stéttarfélags í baráttu fyrir bættum kjörum og betri vinnuaðstæðum félagsmönnum sínum til handa er að kynna málstað sinn fyrir almenningi. Skilningur og stuðningur almennings og samfélagsins í heild fyrir réttmætum kröfum viðkomandi stéttar er eitt öflugasta tækið í kjarabaráttunni og getur skipt sköpum um niðurstöðu. Kennurum er ljóst að þeir hafa sótt á brattann í þessu verkfalli. Í viðtalinu velti ég fyrir mér hvort ástæðan sé sú að þeim hafi ekki tekist að kynna málstað sinn nægilega fyrir almenningi í aðdraganda verkfalls; að skort hafi á heimavinnuna í þeim skilningi. Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.



Skoðun

Sjá meira


×