Skoðun

Frá degi til dags

Túlkunarorrustan Ný orrusta er nú hafin í þeirri pólitísku skálmöld sem stendur yfir á Íslandi, eða vargöld, eins og sumstaðar hefur verið talað um. Hana mætti nefna túlkunarorrustuna, því nú keppast menn við að túlka niðurstöður kosninganna sem mest þeir mega, sjálfum sér og málstað sínum í hag. Hinn endurkjörni forseti hefur þannig talað um að flestir forsetar í hinum vestræna heimi gætu einungis látið sig dreyma um svo góða kosningu sem hann fékk. Forsætisráðherra hefur aftur á móti sagt að úrslitin endurspegli hyldýpisgjá á milli forsetans og þjóðarinnar. Ekki þarf mikla fræðinga til að sjá að hér koma forsetinn og forsætisráðherrann úr sinni áttinni hvor -- og útilokað er að þeir munu mætast. Búast má við að túlkunarorrustan standi þar til þing kemur saman hið skemmsta og þá hefst aðdragandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar um fjölmiðlalögin. Þegar hún er afstaðin byrjar ráðherrakapallinn vegna stólaskiptanna í haust. Margvíslegur stuðningur Flestir nota kosningarétt sinn til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna en sumir nota atkvæðaseðilinn sinn til að koma skilaboðum á framfæri. Nýafstaðnar forsetakosningar eru engin undantekning á þessu. Þannig fékk norski krónprinsinn Hákon atkvæði og Margrét Þórhildur Danadrottning sömuleiðis. Leiða má að því líkum að íslenskir royalistar hafi verið þarna á ferð og að þeir líti í raun á forsetaembættið sem konungsembætti. En kóngafólkið var svo sannarlega ekki eitt um að fá atkvæði, því stuðningsmaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur kaus gamla stórveldið til setu á Bessastöðum og skrifaði skýrum stöfum KR á kjörseðilinn.



Skoðun

Sjá meira


×