Innlent

Ekkert ákveðið um frekari aðstoð

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að ákvörðun um frekari fjárhagsaðstoð íslenskra stjórnvalda vegna flóðanna við Indlandshaf verði tekin í byrjun nýs árs. Þegar hefur verið safnað tugum milljóna hér á landi. Ríkisstjórnin hefur boðið Norðurlöndunum aðstoð við að flytja slasaða frá hamfarasvæðunum. Ríkisstjórnin kom saman á ríkisráðsfundi að Bessastöðum klukkan hálfellefu í morgun en áður en hann hófst var boðað til stutts ríkisstjórnarfundar,. Á ríkisráðsfundinum var farið yfir þau lagafrumvörp sem lögð hafa verið fram á Alþingi í vetur og og þau lögð fyrir forseta Íslands til staðfestingar. Á fundi ríkisstjórnarinnar var eitt mál á dagskrá: neyðaraðstoð íslenskra stjórnvalda vegna hamfaraflóðanna við Indlandshaf. Forsætisráðherra segir að þar hafi verið staðfest fjárframlag upp á fimm milljónir til Rauða krossins en málið verði rætt frekar í byrjun ársins. Halldór segir ekki liggja fyrir hugmyndir um aukið framlag en ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna verði haldin um framlög frá ríkjum heimsins. Auk þess sé að hefjast starf í Srí Lanka og gerður verði samningur við stjórnvöld þar um þessi mál. „Ég býst við að við einbeitum okkur sérstaklega að Srí Lanka í þessu sambandi,“ segir Halldór. Ríkisstjórnin hefur boðið Norðurlöndunum aðstoð við að flytja slasaða frá hamfarasvæðunum. Halldór segir að á hinum Norðurlöndunum hafi ávallt verið brugðist vel við þegar Íslendingar hafi átt um sárt að binda. Því sé eðlilegt að við endurgjöldum það og sýnum hug okkar í þessu sambandi. „Ég vil líka minna á að flaggað verður í hálfa stöng á öllum opinberum byggingum á morgun og vil hvetja landsmenn til að gera hið sama,“ segir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×