Innlent

Flytja Svía og Norðmenn frá Asíu

Íslensk stjórnvöld hafa boðist til að aðstoða við að koma slösuðum Svíum og Norðmönnum frá Asíu til síns heima eða á sjúkrahús. Íslenskt hjálparlið er í viðbragðsstöðu til að halda utan. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra ræddi í gær við Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, vegna náttúruhamfaranna í Asíu. Hann kom á framfæri samúðarkveðjum frá íslensku þjóðinni og sagði hug Íslendinga hjá frændum sínum á stundu sem þessari. Forsætisráðherrarnir ræddu ástandið á hamfarasvæðunum. Þá bauð Halldór fram aðstoð Íslendinga við að koma slösuðum Norðmönnum og Svíum frá Asíu til heimaslóða eða á sjúkrahús á Íslandi. Búið er að tryggja flugvél frá Icelandair sem er til taks á Keflavíkurflugvelli, ásamt því sem íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er reiðubúið til að bregðast við kallinu og hlynna að þeim slösuðu meðan á fluginu stendur. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að Bondevik og Persson hafi þakkað innilega fyrir þetta boð og að aðstoð Íslendinga sé til skoðunar hjá yfirvöldum í Svíþjóð og Noregi. Átta manna lið íslensku alþjóðasveitarinnar, ásamt tuttugu og fimm manna starfsliði frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi, hefur verið í viðbragðsstöðu frá því á miðnætti í gær og er undirbúningur vegna utanfarar í fullum gangi. Fest hefur verið kaup á matvælum og verið er að útvega súrefni og nauðsynleg björgunargögn. Þau skilaboð hafa borist frá Svíþjóð, að sögn Víðis Reynissonar hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, að boðið verði ekki þegið í dag en hugsanlega á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×