Innlent

Íslensk stjórnvöld bjóða aðstoð

Sífellt fleiri finnast látnir eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna sem skall á ströndum landa í Asíu og Afríku á sunnudaginn. Í gærkvöld var staðfest að um 130 þúsund manns hefðu fundist látin og hafði þá tala látinna hækkað um 50 þúsund á einum sólarhring. Flestir hafa fundist látnir í Indónesíu eða ríflega 80 þúsund manns og næstflestir á Srá Lanka, um 26 þúsund. Íslenskt par sem ekki hafði frést af frá því að jarðskjálftinn varð hefur látið vita af sér. Parið var á Pattaya í Taílandi, fjarri hamfarasvæðinu. Enn er samt tíu Íslendinga leitað eins og í fyrradag því í gær var utanríkisráðuneytið beðið um að finna tvo menn á miðjum aldri sem báðir sögðust ætla að vera í Taílandi í nokkra mánuði. Auk þeirra tveggja er leitað að fimm manna fjölskyldu sem talin er vera á Balí og pari með barn sem samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu ættu að vera á Pattaya. Átta manna hópur Íslendinga sem var á Patong-strönd á Phuket þegar flóðbylgjan reið yfir fer til Bangkok á nýársdag. Hópurinn, sem sat að snæðingi á hóteli þegar flóðbylgjan skall á ströndinni um kílómetra frá, ætlar að koma til Íslands eftir rúma viku. Fjöldi Norðurlandabúa hefur látist í flóðunum og er búið að lýsa yfir þjóðarsorg í Noregi og Svíþjóð á nýársdag. Íslensk stjórnvöld hafa haft samband við sænsk og norsk stjórnvöld og boðist til að fljúga með slasaða frá Asíu og á sjúkrahús í Noregi og Svíþjóð eða á sjúkrahús á Íslandi. Það mun skýrast í dag hvort boðið verður þegið. Ef svo verður mun flugvél Icelandair annast fólksflutningana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×