Innlent

Aukning skrifstofuhúsnæðis

Heilu hverfin eru að byggjast upp í borginni af splunkunýju atvinnuhúsnæði. Samkvæmt tölum frá byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar kom kippur í nýbyggingar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði árið 1999. Það ár voru byggð 47.791 m2 af slíku húsnæði, en til samanburðar voru í kringum fimmtán þúsund fermetrar byggðir á ári milli 1996 og 1998. Mest var byggt árið 2000, eða 66.198 m2 en á síðasta ári var þessi tala í 35.527 m2. Ekki er gott að segja til um hvað verður um húsnæðið sem fyrirtækin flytja úr. Samkvæmt Guðmundi Theodóri Jónssyni, fasteignasala hjá Fasteignamarkaðnum ehf. fer eftir staðsetningu eignanna hvað um þær verður. "Til dæmis verið að breyta eldra skrifstofuhúsnæði víða um borgina í íbúðir." Ekki hefur farið framhjá mörgum að hingað til hefur gengið illa að selja gamalt skrifstofuhúsnæði. Gamla Moggahúsið við Ingólfstorg og DV-húsið í Þverholti hafa til að mynda staðið auð um langt skeið. Fasteignasölum ber saman um að veruleg aukning hafi verið í sölu á slíku húsnæði. "Þessar eldri skrifstofubyggingar hafa margar hverjar verið úr sér gengnar sem slíkar og eitthvað hefur verið um að fjárfestar hafi verið að kaupa slíkar eignir á góðum stöðum og gera þær samkeppnishæfar á ný," segir Guðmundur. Eins og gefur að skilja er verðið mjög mismunandi á atvinnuhúsnæði eftir aldri, staðsetningu og ástandi. "Munurinn getur verið allt upp í helmingur. Eldra húsnæði er í sumum tilvikum að seljast á verðbilinu 100 til 125 þúsund á fermetrann á meðan nýtt, vel staðsett skrifstofuhúsnæði er að seljast á allt að helmingi hærra verði."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×