Innlent

Vilja 230 Kínverja

Framkvæmdastjóri Vinnumálalstofnunar sagði á fundi með aðstoðarframkvæmdastjóra Alþýðusambandsins í dag að 54 Kínverjar fengju atvinnuleyfi á næstu dögum að ósk Impregilo. Félagsmálaráðherra segir að það gerist ekki fyrir áramót. Impregilo ætlar að sækja um atvinnuleyfi fyrir að minnsta kosti 230 Kínverja. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, fundaði með fulltrúum Vinnumálstofnunar í dag vegna umsóknar Impregilo um að hálfu hundraði Kínverja verði veitt atvinnuleyfi hér á landi. Hann kom ósáttur frá þeim fundi. Hann sagði að til stæði að veita 54 atvinnuleyfi á næstu dögum. Halldór segir þetta ekki í neinu samræmi við íslenskar verklagsreglur og álitamál hvort þetta standist lög. Hann segir að málflutningurinn sé á þá leið að þjóðhagslegur ávinningur sé svo mikill að það sé í lagi að beygja allar reglur með þeim hætti sem Impregilo henti hverju sinni. Hann segir Impregilo ekki vilja íslenska starfsmenn og stjórnvöld lúti einfaldlega vilja fyrirtækisins. Halldór segir fleiri Kínverja á leiðinni. Hann segir að sótt hafi verið um að minnsta kosti 230 atvinnuleyfi fyrir Kínverja. Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, segir að hafa þurfi þrennt í huga við veitingu atvinnuleyfa: alþjóðlegar skuldbindingar, íslensk lög og verklagsreglur Vinnumálastofnunar. Hann segir því ekki standa til að nein atvinnuleyfi verði gefin út í dag eða á morgun. Hann segir að umsóknirnar verði afgreiddar rétt eins og hverjar aðrar og það verði bara að koma í ljós hvort samþykkt verði að veita þessi atvinnuleyfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×