Innlent

Samfélagsbreyting vegna skólans

Stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði þýðir samfélagsbreytingu á Snæfellsnesi. Fjórir árgangar ungs fólks, sem áður leituðu út fyrir héraðið, stunda nú nám í sinni heimabyggð. Sveitarfélögin á norðanverðu nesinu tóku höndum saman með ríkinu að uppbyggingu Fjölbrautaskólans en hann hóf starfsemi í haust í þessu 850 manna plássi. Þessa dagana eru iðnaðarmenn að ljúka smíði skólahússins en frá því í ágúst hafa nemendur og starfsfólk þurft að láta sér nægja 800 fermetra rými. Þegar þau mæta aftur í skólann eftir jólafrí verður húsrýmið orðið 1900 fermetrar. Það kom á óvart í haust hversu margir sóttu um skólavist. Guðbjörg Aðalbergsdóttir, Skólameistari FSN, segist hafa búist við um 50-70 umsóknum, en raunin hafi orðið sú að um 120 fengu inni. Nemendur voru fyrst og fremst teknir inn í fyrsta og annan árgang í haust en þegar allir árgangir verða orðnir fullskipaðir mun nemendafjöldinn nálgast 300 manns. Þetta er fyrsti framhaldsskóli landsins með svokallaðan opinn skóla. Kennslurýmin séu stór og margir kennarar inni í sama rýminu segir Guðbjörg. Einnig er minni áhersla á fyrirlestraform í kennslunni en meiri á vinnu nemenda. Guðbjörg segir nemendur læra í gegnum verkefni sem þeir vinni. Skólarútur flytja nemendur á hverjum morgni úr Stykkishólmi og Snæfellsbæ og heim aftur síðdegis. Áður þurftu ungmenni af Nesinu að sækja framhaldsskólanám annað. Guðbjörg segir hóp fólks á milli 16-20 ára sem farið hafi í burtu á veturna nú vera heima yfir veturinn og það sé gríðarleg breyting.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×