Innlent

Bankaráð klofið

Bankaráð Íslandsbanka er klofið eftir að bankastjóri bankans rak aðstoðarbankastjórann í gær. Minnihluti ráðsins er ósáttur og segir það bankaráðs að taka slíkar ákvarðanir og að kalla eigi það til fundar áður en slíkir menn séu reknir, ekki eftirá. Formaður bankaráðs heldur því fram að einhugur sé í bankaráði á bak við bankastjórann. Bankaráð Íslandsbanka kom saman til fundar í morgun í kjölfar þess að Bjarni Ármannsson, bankastjóri rak Jón Þórisson, aðstoðarbankastjóra í gær vegna eins og Bjarni segir það málefnalegs ágreinings um það hvernig best sé að reka bankann. Bjarni segir að einhverjir séu ósáttir við ákvörðunina, en allir virði það að hann hafi ákvörðunarvald til þess að taka slíka ákvörðun. Jón Þórisson sagði í samtali við fréttastofu í dag að samskipti hans og Bjarna Ármannssonar hefðu tekið stakkaskiptum eftir að hann léði máls á því í fjölmiðlum í haust að Íslandsbanki og Landsbanki yrðu sameinaðir. Bjarni segist ekki vilja ræða um ágreiningsmálin í fjölmiðlum, þar sem það sé bankanum ekki til góðs. Jón heldur því sömuleiðis fram að þessi brottrekstur hafi verið löngu ákveðinn. Það segir Bjarni rangt. Jón sagði líka í samtali við fréttastofu að andað hefði köldu í samskiptum þeirra tveggja um nokkurt skeið. Bjarni segir ekki rétt að fara út í slíkar málalengingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×