Innlent

50 milljónir hafa safnast

Íslenskur almenningur og fyrirtæki hafa brugðist framar vonum við neyðarkalli vegna hamfaranna og gefið tugmilljónir króna. Vinstri Grænir segja allt of lítið að ríkisstjórnin gefi aðeins fimm milljónir og skora á stjórnvöld að reiða fram minnst þrjú hundruð milljónir króna. Nokkrir tugir mættu á minningarstund var haldin í Árbæjarkirkju í dag þar sem beðið var fyrir látnum, týndum og aðstandendum fólks á hörmungarsvæðunum. Ákveðið hefur verið að fáni skuli dreginn í hálfa stöng við opinberar stofnanir á nýársdag vegna hamfaranna. Tveir þeirra 10 Íslendinga sem ekki var vitað um eru komnir í leitirnar, en tveir einstaklingar hafa bæst á listann í stað þeirra. Þeir voru, síðast þegar fréttist, á Pattaya svæðinu í Tælandi. Íslenskt par sem var í grennd við Bangkok er komið í leitirnar, en enn er leitað að öðru íslensku pari með barn. Þá hefur ekki tekist að ná sambandi við fimm manna fjölskyldu á Bali.  Tæplega tuttugu þúsund manns hafa hringt í söfnunarsíma Rauða kross Íslands vegna hamfaranna. Safnast hafa um fimmtíu milljónir króna, og er um helmingur frá almenningi. Þá hefur lyfjafyrirtækið Actavis ákveðið að gefa stóra sendingu af sýkla- og verkjalyfjum, og er verðmæti þeirra á þriðja tug milljóna króna. V instri-hreyfingin grænt framboð segir að þær 5 milljónir sem ríkisstjórnin hefur reitt fram sé allt of lág fjárhæð og skora á stjórnvöld að gefa minnst 300 milljónir. Þeir hafa óskað eftir fundi í fjárlaga- og utanríkismálanefnd vegna þessa. Formenn nefndanna segja að afstaða til beiðninnar verði tekin í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×