Innlent

Niðurgreiðsla afnumin

Fólk með meira en tvö hundruð þúsund krónur í mánaðartekjur fær enga niðurgreiðslu vegna vistunnar barna hjá dagmæðrum í Reykjanesbæ frá og með fyrsta mars. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, segir málið enn í skoðun. Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fyrir árið 2005 falla sjálfvirkar greiðslur til foreldra vegna dagvistar barna í heimahúsum niður. Reiðir foreldrar ræddu þetta mál við Árna Sigfússon bæjarstjóra í morgun. Nú geta foreldrar sótt um niðurgreiðslu til Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar á grundvelli tekna. Niðurgreiðslur til hinna tekjulægstu hækka hins vegar úr 11 þúsund krónum í 16 þúsund krónur á mánuði. Foreldrar með 100-150 þúsund krónur á mánuði fá nú 13 þúsund krónur á mánuði í stað 11 þúsund króna áður og foreldrar með tekjur undir 200 þúsund krónum á mánuði fá áfram ellefu þúsund. Foreldrar með yfir 200 þúsund króna mánaðarlaun njóta ekki niðurgreiðslu vegna dagvistar í heimahúsum. Hér er um að ræða sameiginlegar tekjur fólks og ljóst að afar fá hjón eru með tekjur undir tvö hundruð þúsund krónum. Árni segir eigi að síður að því miður séu til hjón sem hafi undir 200 þúsund krónum í tekjur á mánuði og það sé talið mjög mikilvægt að koma til móts við þann hóp. Hann segir þó líklegt að meginhluti þess fólks sem hafi notfært sér þjónustuna sé með hærri tekjur og því sé þetta auðvittað hörð ákvörðun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×