Innlent

Hætta ekki með 100% lán

KB-banki telur hækkanir á fasteignamarkaði óeðlilegar og óttast afleiðingarnar sem kunni að leiða til þess að fólk festist í skuldafjötrum. Bankinn telur þó ekki tímabært að hætta að bjóða hundrað prósenta íbúðalán, eins og Landsbankinn hefur ákveðið. Landsbankinn telur óskynsamlegt, vegna þenslu og verðbólgu, að bjóða 100 prósenta íbúðalán og hefur ákveðið að setja hámarkið við 90 prósent af markaðsvirði íbúða. KB-banki hefur áhyggjur af þróuninni á markaðnum, en bankinn hefur boðið allt að 100 prósenta íbúðalán, sem er tvískipt, eða 80 prósenta lán í allt að 40 ár og 20 prósenta lán í 10 til 15 ár. Friðrik Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs KB-banka, segir að hækkanir hafi verið óeðlilega miklar undanfarið og auðvitað sé hætta á því að það sem fari hratt upp komi aftur hratt niður. Friðrik segir að það geti komið fyrir að fólk lendi í skuldafjötrum og geti ekki skipt um íbúð, þar sem skuld af íbúðinni sé orðin hærri en verð eignarinnar. KB-banki telur ekki tímabært að hætta að bjóða 100 prósenta íbúðalán. Friðrik segir að hins vegar sé bankinn að bæta upplýsingar um greiðslumat, greiðslubyrði og kostnað við að lifa almennt. Hann segir að um 10% þeirra sem taki íbúðalán hjá bankanum hafi tekið 100% lán og allt í allt hafi bankinn veitt um það bil 150 manns slík lán.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×