Innlent

Tók sjálf þátt í atkvæðagreiðslu

Hansína Ásta Björgvinsdóttir, nýráðinn bæjarstjóri í Kópavogi, tók sjálf þátt í atkvæðagreiðslu um ráðningarsamning sinn í bæjarstjórn. Hún segir að vel megi vera að hún hafi átt að sitja hjá. Fjallað var um starfssamning við Hansínu Ástu Björgvinsdóttur á fundi bæjarstjórnar í gær. Hún mun hafa 570 þúsund í mánaðarlaun auk fastrar yfirvinnu sem eru þrjátíu tímar á mánuði. Samfylkingin í Kópavogi gerir athugasemdir við að Hansína greiddi sjálf atkvæði um samningin við sjálfa sig og bendir á að forveri hennar hafi setið hjá þegar greidd voru atkvæði um samning hans. Samfylkingin segir það umhugsunarefni hvort Hansína hafi ekki verið vanhæf til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Þá segir Samfylkingin í fréttatilkynningu að biðlaunaréttur sem samið var um til eins mánaðar eftir að starfi Hansínu lýkur sé óeðlilegur en í samningnum er ákvæði um að Hansína njóti launa í einn mánuð eftir að hún lætur af störfum. Hansína sagði í samtali við fréttastofu að það megi vel vera að rétt hefði verið að hún sæti hjá við afgreiðslu samningsins í bæjarstjórn. Það hafi hins vegar ekki hvarflað að henni, þar eð ekki væri hún á móti efni hans. Hvað biðlaunin varðar segir Hansína að þau séu hugsuð sem laun fyrir þá vinnu sem hún hefur nú þegar innt af hendi eftir sviplegt fráfall Sigurðar Geirdal heitins, fyrrverandi bæjarstjóra. Hún hafi undanfarin mánuð sinnt ýmsum störfum bæjarstjóra án þess að fá sérstaklega greitt fyrir það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×