Innlent

Símtalið kostar á annað hundrað

Hvert símtal í þjónustunúmerið 118 kostar yfirleitt á bilinu sextíu til 120 krónur. Upphafsgjald fyrir hringingar í númerið eru fimmtíu krónur ef hringt er úr farsíma en er lítið eitt lægra ef hringt er úr heimilissíma. Auk þess kostar hver mínúta sem talað er rétt tæpar sextíu krónur ef hringt er úr farsíma en fimmtíu krónur ef hringt er úr heimasíma. Fréttablaðið veit dæmi símnotanda sem greiddi rúmlega tvö þúsund krónur fyrir þrjátíu hringingar úr heimasíma í 118. Fyrir rúmlega sextíu símtöl í gsm-síma í sama mánuði greiddi hann tvö hundruð krónum minna en í heild námu símtölin þrjátíu við 118 meira en fjörutíu prósentum af símreikningnum. Áframflutningur í símanúmer gegnum 118 kostar þrjár krónur og hefur verð þeirrar þjónustu verið auglýst í fjölmiðlum. Hins vegar hefur verð símtala við 118 ekki verið auglýst. "Þjónustan sem 118 býður upp á hefur afskaplega lítið verið auglýst en áframflutningsþjónustan var auglýst þegar hún var ný," segir Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. "Þá er verðskrá okkar aðgengileg á netinu hverjum þeim sem hana vilja skoða."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×