Innlent

Niðurlæging fyrir gamla fólkið

"Það er mikil niðurlæging fyrir gamla fólkið að þurfa að fara með fötin sín í poka til ættingja sinna," segir Jón Fanndal Þórðarson, formaður Félags eldri borgara á Ísafirði. Aldraðir Ísfirðingar eru ósáttir við ákvörðun stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar um að taka 5.500 króna gjald af vistmönnum öldrunardeildar sjúkrahússins fyrir þvott á einkafatnaði. Mun gjaldtakan gilda frá og með áramótum að því er fram kemur á vef Bæjarins besta á Ísafirði. Þvottahúsi sjúkrahússins var lokað í sumar og tók efnalaug þá við þvottunum. Sjúkrahúsið hefur greitt fyrir þvott á fatnaði vistmannanna, sem eru um fimmtán talsins, þar til nú. "Þetta er að sjálfsögðu spurning um peninga þar sem þetta fólk á enga peninga," segir Jón og bætir við að vistmenn deildarinnar hafi einungis um 11.000 krónur í vasapeninga á mánuði. "Þetta eru litlar upphæðir sem skipta engu máli fyrir sjúkrahúsið en miklu máli fyrir gamla fólkið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×