Innlent

Impregilo auglýsir

Impregilo auglýsti í gær eftir tækjamönnum, byggingamönnum með reynslu úr stórframkvæmdum, rafvirkjum og starfsfólki til þjónustustarfa. Áskilin er þriggja ára reynsla af sambærilegum störfum. Starfsmenn Svæðisvinnumiðlunar Austurlands aðstoðar fólk við að sækja um störfin. Þetta gerði Impregilo eftir neikvæða umsögn ASÍ um atvinnuleyfi fyrir 150 Kínverja. Egill Heiðar Gíslason, verkefnisstjóri hjá Vinnumálastofnun, segir að vakin hafi verið athygli Impregilo á því að þeim beri að auglýsa laus störf á Íslandi. "Við höfum hvatt þá til þess," segir Egill og telur að nú sé auglýst eftir fólki í störf Kínverjanna. Impregilo geti ekki bara komið og sagst vilja fá útlendinga. "Við teljum að það verði að vera fullreynt að ekki sé um íslenskan starfskraft að ræða. Sömuleiðis erum við háð samningum um að það beri að auglýsa á Evrópska efnahagssvæðinu og þeir eru að auglýsa þar líka. Við höfum bent þeim á þessa hluti og þeir eru að bregðast við því." Egill vill ekkert um það segja hvort það sé trúverðugt að fullreynt verði að fá Íslendinga til starfa að Kárahnjúkum þegar umsóknarfrestur um lausu störfin rennur út 10. janúar þegar þess er gætt að Impregilo reyndi fyrst að fá Kínverjana til starfa án þess að auglýsa fyrst störfin innan EES. "Það finnst mér of snemmt að svara til um núna. Það er verið að auglýsa eftir íslensku starfsfólki. Svo kemur í ljós hver viðbrögðin verða og hvernig þeim viðbrögðum er sinnt af hálfu fyrirtækisins. Það er ekki hægt að segja meira um það á þessu stigi," segir hann. Impregilo hefur sent Vinnumálastofnun ósk um undanþágu fyrir 54 Kínverja en þær hafa ekki verið afgreiddar. Egill Heiðar telur að niðurstaða af þeirri skoðun liggi fyrir um áramót. Framkvæmdum sé hraðað og því þurfi aukinn mannafla strax.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×