Innlent

Sjórinn fullur af börnum

Norrænu þjóðirnar eru harmi slegnar, sérstaklega Svíar. Fjórðungur til þriðjungur fórnarlamba hamfaranna við Indlandshaf eru börn. Á vefmiðlum lýsa ættingjar eftir fólki og birta myndir, sagt er frá leit að fólki og birtur tölvupóstur með frásögnum úr þessu "helvíti" á jörð. Netið er notað til hins ítrasta. Óskað er eftir ábendingum í tölvupósti og miðillinn notaður til að sameina fjölskyldur. "Í gær tíndum við ungabörn og börn upp úr sjónum. Og það eru fjöldamörg eftir. Allur sjórinn er fullur af börnum," segir sænskur ferðamaður í tölvupósti til sænska blaðsins Expressen í gær. Ferðamenn og innfæddir virðast hafa safnast upp í fjöllin. Svíi segir frá erfiðum skurðaðgerðum sem þar fara fram við frumstæðar aðstæður, við olíulýsingu með skítugum hníf. Sumir nota viskí til sótthreinsunar. Sænskur faðir leitar að fjögurra og fimm ára sonum. Hann óttast að líkið af konu sinni týnist í líkhúsinu og hefur það með í för. Hann hefur vafið sænska fánanum um kistuna og skrifað nafn hennar. Í Noregi er margra saknað. Í sumum tilfellum er lýst eftir heilu fjölskyldunum. Sænska ríkisstjórnin hefur fengið harða gagnrýni fyrir sofandahátt og þess krafist að Laila Freivalds utanríkisráðherra segi af sér: "Norrænu ríkisstjórnirnar verða að sameinast um að senda neyðaraðstoð í formi flutningavéla til að sækja þá sem eru mest slasaðir. Þetta er áríðandi og má ekki bíða. Hjálpið okkur að fá sænsk stjórnvöld til að skilja að þau verða að bregðast skjótt við," segja sænsk læknishjón í tölvupósti. Þau óskuðu eftir aðstoð í tölvupósti strax í byrjun vikunnar en þau voru stödd í fríi í Taílandi: "Við þurfum bráðaflutning af slösuðum til Skandinavíu. Hér eru margir alvarlega slasaðir, sumir margbrotnir og aðrir með lífshættulega áverka. Við vitum ekki hversu margir deyja á sjúkrahúsinu næstu daga ef þeir fá ekki flutning heim." Finnar gera ráð fyrir að hafa náð öllu sínu fólki heim um helgina en Svíar ekki fyrr en á þriðjudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×