Innlent

Ekki vitað um 10 Íslendinga

Enn hefur ekki náðst í tíu íslendinga sem staddir eru á Balí og á Taílandi en utanríkisráðuneytið telur þær upplýsingar sem það hefur um þetta fólk gefa minni ástæðu til að óttast um örlög þess. Hjá ráðuneytinu vilja menn hins vegar fá fullvissu um staðsetningu fólksins. Friðrik Pálsson sem er ásamt sjö íslendingum í Patang sagði í samtali við fréttastofu að hópurinn væri í góðu lagi og hefði í hyggju að halda norður í land. Þetta eru sex starfsmenn prentsmiðjunnar Odda en fyrirhugaðri för þeirra niður á strönd annan jóladag seinkaði þannig að þau sluppu við flóðbylgjuna. Kona Friðriks er taílensk og segir hann því auðvelt fyrir hópinn að ferðast um og komast leiðar sinnar. Þau hafa í hyggju að klára ferðalag sitt og hyggja að heimkomu um miðjan næsta mánuð. Enn eru tíu íslendingar sem utanríkisráðuneytið hefur ekki náð tali af. Pétur Ásgeirsson hjá utanríkisráðuneytinu segir síðustu upplýsingar um fólkið benda til þess að þau ættu að hafa sloppið vel en nauðsynlegt sé að fá það staðfest. Hann segir annars vegar um að ræða fimm manna fjölskyldu sem staðsett sé á Balí og hins vegar fimm manns sem séu nálægt Bangkok í Taílandi. Hann segir ekki beinlínis hættuástand á þessum stöðum og því sé ekki ástæða til þess að óttast um fólkið, svo fremi að það hafi verið á þessum stöðum þegar hörmungarnar gengu yfir. Pétur segir símasamband mjög slæmt og farsímasamband nánast alveg óvirkt á svæðinu, auk þess sem fólk sem ekki hafi beinlínis verið á hættusvæðinu sjálfu átti sig ef til vill hreinlega ekki á alvarleika atburðanna að fullu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×